05.09.2024

Uppselt á Haustráðstefnu Advania

Vefhluti þrítugustu Haustráðstefnu Advania fór fram í gær og í dag fer aðaldagskráin fram fyrir fullum sal í Hörpu. Í Silfurbergi mun fjöldi erlendra og innlendra fyrirlesara stíga á svið og verður áhersla lögð á gervigreind, öryggismál og sjálfbærni. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar í ár er Nina Schick.

Sylvía Rut Sigfúsdóttir
samskipta- og kynningarstjóri Advania

Aðaldagskráin hefst í Silfurbergi klukkan 10 í dag en upp úr klukkan átta hefjast fyrstu hliðarviðburðirnir í Hörpu.

Uppselt er á Haustráðstefnuna í ár og komust færri að en vildu.

Enn er þó hægt að skrá sig á pallborðsumræður um íslensku og gervigreind í Kaldalóni Hörpu, en viðburðurinn er opinn öllum sem skrá sig og þarf ekki að eiga miða á ráðstefnuna til að mæta. Viðburðurinn hefst klukkan 14.

Óttar Kolbeinsson Proppé sérfræðingur í máltækni hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu stýrir sérstökum pallborðsumræðum um gervigreind og íslenska tungu.

Í pallborðinu verða Eydís Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og meðeigandi Tiro ehf, Vilhjálmur Þorsteinsson stofnandi og stjórnarformaður Miðeindar, Lilja Dögg Jónsdóttir nýr framkvæmdastjóri Almannaróms og Jón Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóri Bara tala.