Bragi Gunnlaugsson leiðir okkur í allan sannleik um Haustráðstefnuna 2023

04.09.2023

Haustráðstefnan er alveg að bresta á

Hvað er gott að hafa í huga til að fá sem mest úr upplýsingatækniviðburði ársins?

Bragi Gunnlaugsson
Vefstjóri Advania

Við höfum öll okkar mismunandi stiku sem segir okkur hvenær haustið er byrjað. Hjá sumum er það litabreytingar á gróðrinum og kannski þegar berin láta sjá sig. Hjá öðrum er það fyrsta haustlægðin sem rekur öll garðhúsgögn og trampólín skyndilega aftur í vetrarhýðið.

Hjá okkur í Advania er það hinsvegar veislan, hátíðin og samhristingurinn sem við köllum Haustráðstefnuna.

Í ár er ráðstefnan haldin í 29. sinn og við erum ófeimin að segja að hún hefur sjaldan eða aldrei verið jafn glæsileg. Listinn yfir fyrirlesara er langur og glæsilegur - ef ég færi að telja þá alla upp myndum við sitja hér saman í klukkutíma. Ég hvet þig til að skoða dagskrána og sjá fjölbreytileikann. Við munum heyra um allt frá gagnagreiningu í Ísfólkinu til þess hvernig netglæpir og viðskipti með persónugögn eru orðin að heljarinnar bransa. Ef þú finnur ekki eitthvað sem þú hefur áhuga á skal ég éta hattinn minn.

Á Haustráðstefnunni 2023 ætlum við að prufa nokkuð magnað: að bjóða upp á tvær útgáfur af ráðstefnunni sem gestir geta valið um. Eina af gamla skólanum í raunheimum, og aðra í netheimum í opinni dagskrá. Bókstaflega það besta úr báðum heimum!

Svo. Hvað þarf að hafa í huga til að fá sem mest úr ráðstefnunni?

Fyrir ráðstefnu:

  • Fyrst og fremst er auðvitað að skrá sig. Online skráning veitir þér aðgang að beinu útsendingunni og upptökum af öllum erindum að ráðstefnu lokinni. Premium skráning bætir ofan á það miða á Premium dagskrána í Hörpu 7. september. Sú dagskrá er ekki send út í beinni.
  • Settu saman þína dagskrá með því að smella á hjartað á fyrirlestrarspjaldinu. Þú getur alltaf nálgast þína dagskrá í valmyndinni efst á síðunni.

Áttu miða á Premium daginn 7. september?

  • Ráðstefnan hefst af krafti kl 11:00 og það eru sannkallaðar kanónur sem ætla að fylgja okkur úr höfn. Gefðu þér því nægan tíma til að ná í ráðstefnupassann þinn og kannski einn kaffibolla áður en þú sest inn í Silfurberg. Ég mæli með að vera komin í síðasta lagi 10:30
  • Á slaginu tólf er hádegismatur og þá er gráupplagt að blanda geði við aðra ráðstefnugesti. Þetta er sérstaklega gott tækifæri til að hressa upp á tengslin eftir sumarið.
  • Samstarfsaðilar okkar verða á svæðinu að kynna spennandi lausnir. Ekki gleyma að kíkja á básana og taka spjallið. Það er aldrei að vita nema þú vinnir glæsileg verðlaun!
  • Að ráðstefnu lokinni er boðið upp á kokteil. Þar er ekki bara gott að hitta aðra rástefnugesti, heldur einnig einstakt tækifæri til að hitta á fyrirlesarana. Það er því ekkert vitlaust að staldra aðeins við eftir síðasta erindið.

Ætlarðu að fylgjast með beinu útsendingunni?

  • Það sakar ekki að skrá sig inn á ráðstefnuvefinn nokkrum mínútum áður en útsending hefst. Við lofum frábærri biðtónlist!
  • Ráðstefnuvefurinn virkar vitaskuld í öllum vöfrum og í öllum snjalltækjum. Mér finnst persónulega gamla góða tölvan klikka seint til að fá bestu upplifunina.
  • Ekki hafa áhyggjur þó þú missir af einhverju. Þetta verður allt aðgengilegt á vefnum eftir ráðstefnu.

Áttu eftir að skrá þig?

Að fylgjast með á vefnum er auðvitað frítt og öllum opið. Premium miðar eru enn til þegar þessi orð eru skrifuð, en fara hratt! Ég hvet þig til að skrá þig og taka þátt í veislunni - þú vilt ekki missa af þessu.