Momcilo Drakulic, sérfræðingur í rekstrarlausnum hjá Advania.

22.02.2024

Advania markar tímamót í fjarskiptainnviðum með tengingu til Dublin

Advania hefur komið á fót nýrri fjarskiptatengingu til Dublin í samstarfi við Farice, rekstraraðila IRIS-sæstrengsins. Áður hafði Advania tryggt tengingar við alþjóðlegar miðstöðvar í Amsterdam, London og New York.

„Helstu áhrif sem tengingin hefur fyrir notendur er betri svartími til Evrópu, hærra þjónustustig samanborið við fjarskiptafélög á fyrirtækjamarkaði og notendur gagnavera njóta sérkjara. Í dag er boðið upp á 40Gbps bandbreidd en innviðir Advania gera ráð fyrir möguleika á stækkun sambanda. Samhliða þessu býður Advania upp á svokallaða Cloud Exchange vöru með beinar tengingar við helstu þjónustuaðila skýjaþjónusta eins og Azure, AWS, Google og Oracle. Þjónustan fer fram hjá opna internetinu og tengist í gegnum Amsterdam, London eða Dublin,“ segir Momcilo Drakulic, sérfræðingur í rekstrarlausnum hjá Advania.

Allar fjarskiptaleiðir eru varðar með DDoS- vörnum í gegnum þjónustur frá Arelion, GTT og Voxility og stefnt er á aukið vöruframboð á DDoS vörnum á öðrum ársfjórðungi 2024.

Í dag er Advania eini þjónustuaðilinn á Íslandi sem getur tryggt ábyrgð á rekstri kerfa í upplýsingatækni alla leið frá útstöð í skýjaþjónustur, án aðkomu þriðja aðila, sem þýðir skilvirkari rekstur fyrir viðskiptavini og minna flækjustig.

Með þessum aðgerðum heldur Advania áfram vegferð sinni í að þjónusta þarfir fyrirtækja og gagnavera á alþjóðavísu með öryggi í fyrirrúmi.