Handhafar Jafnvægisvogarinnar 2023. Mynd: FKA - Félag kvenna í atvinnulífinu.
13.10.2023Advania hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA
Advania hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA. Tilgangur verkefnisins er að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.
Advania skrifaði undir viljayfirlýsingu jafnvægisvogar FKA árið 2020 og hefur síðan þá aukið hlut kvenna hjá fyrirtækinu heilt yfir og í framkvæmdastjórn félagsins.
Upplýsingatækni er og hefur sögulega verið karllæg grein en hlutfall kvenna innan upplýsingatækni er aðeins 25%. Við höfum lagt vinnu í að auka hlut kvenna hjá Advania og höfum náð árangri innan okkar fyrirtækis. Hlutfall kvenna innan Advania er orðið 30% og hækkar því ofar sem farið er í stjórnendalögin. Meðal innri verkefna sem markvisst hefur verið unnið að og skilað hafa árangri má nefna verkefni tengd jafnlaunamálum, ráðningarferlum og umsóknarfjölda, fæðingarorlofstöku, kynjahlutföllum, starfsánægju, starfsþróun, starfsmannaveltu, vinnuumhverfi og aðbúnaði. Við trúum því að þegar okkar fólki líði vel og fái stuðning til jafnra tækifæra náum við betri árangri.