Að hægja á lífinu
Fyrir um ári, þá ófrísk af mínu öðru barni áttum ég og maðurinn minn samtal um líðan, framtíðardrauma og sýn okkar á æsku drengjanna okkar.
Hólmfríður Rut Einarsdóttir
Sérfræðingur í viðskiptavegferð Microsoft
Niðurstaðan varð að rífa upp tjaldhælana og flytja 700 km austur á land þar sem báðar fjölskyldur okkar búa, í hjartanu var það rétt ákvörðun en í metnaðarfulla heilahvelinu mínu var hik, myndi ég með þessu kveðja alla mína drauma um vöxt í starfi?
Fæðingarorlofið á nýju heimili okkar hér fyrir austan er búið að vera yndislegt og allir fjölskyldumeðlimir þrífast betur í þessu hægara lífi (lesist umferðarlausa, hver er ekki til í það!?), við höfum meiri tíma til að sinna okkur sjálfum, hvort öðru, fjölskyldu, vinum og hreyfing er ekki lengur púsluspil sem þarf að koma að eins og flóknum jöfnureikningi.
Hikið í metnaðarfulla heilahvelinu var þarna enn, alveg þar til fyrir viku þegar ég byrjaði aftur að vinna, starfið mitt tók ég með mér.
Á þessari viku fann ég að samstarfsfólk mitt var ánægt að fá mig til baka, þrátt fyrir að ég ynni í fjarvinnu, mér finnst auðvelt að einbeita mér ein á heimaskrifstofu og mín biðu flott verkefni og aukin ábyrgð. Fer svo suður reglulega að hitta samstarfsfólk og sækja viðburði.
Advania Ísland á hrós skilið fyrir að gefa starfsfólki sínu tækifæri á að blómstra í starfi sama hvaðan það kýs að vinna.
Nú fæ ég það besta úr báðum heimum, draumi líkast.