Blogg - 04.02.2015

Sýndarvélar eru engin sýndarveruleiki

Það stefnir allt í að árið 2015 verði spennandi fyrir okkur í sýndarvélabransanum.

Það stefnir allt í að árið 2015 verði spennandi fyrir okkur í sýndarvélabransanum enda hafa orðið miklar framfarir á skömmum tíma. Sífellt fleiri aðilar nýta sér þessa tækni í sínum tölvurekstri með fjölbreyttum hætti.

Nokkrar orðskýringar

Það er ekki úr vegi að hefja þennan pistil á orðaskýringum enda gef ég mér að fæstir lesendur séu innvígðir í þessi fræði. 
  • Sýndarvél kallast Virtual Machine á ensku og er tölva sem keyrir eingöngu á hugbúnaði á sýndarvélaþjóni
  • Sýndarvélaþjónn (Hypervisor) er netþjónn sem keyrir stýrikerfi sem getur ræst upp sýndarvélar og stýrt þeim
  • Þjónustur (Services) er hugbúnaður eins og til dæmis póstþjónusta, gagnagrunnsþjónar eða vefþjónustur svo eitthvað sé nefnt
  • Gagnastæða – Storage Area Network  - samanstendur af mörgum samtengdum hörðum diskum sem saman mynda heildstæða gagnageymslu

Sýndarvélarnar verða ríkjandi

Auknar vinsældir sýndarvélatækninnar í upplýsingatækni má skýra með því að hagnýting þeirra minnkar þörf fyrir dýran vélbúnað, umsýsla verður einfaldari og auðveldara verður að stýra kostnaði. Í dag liggur beint við að keyra þjónustur eins og tölvupóstkerfi, bókhaldskerfi, gagnagrunna eða vefþjónustur á sýndarvélum. Þjónustur eru settar á sýndarvélar til að gera þær hraðari og afkastameiri og verja þær fyrir bilunum í vélbúnaði. Vélbúnaður sem sýndarvélar keyra á er vissulega sífellt öflugri og einsleitari en framþróun hugbúnaðar er víðtækari og áhugaverðari. Nú má til dæmis byggja afritun gagna, gagnageymslu og jafnvel netkerfi á sýndarvélatækni. 

Sýndarvélarnar eru á bakvið skýin

Í dag er mikið fjallað um skýjaþjónustur og menn slá fram hugtökum eins og „Software as a Service“ (SaaS), „Platform as a Service“ (PaaS), „Backup as a Service“ (BaaS) og áfram mætti lengi telja. Slík þjónusta er veitt í áskrift eftir umfangi notkunar, hraða eða afkastagetu af þjónustuveitanda (Cloud Service Provider). Notendur geta tekið slíka þjónustu í notkun með skömmum fyrirvara. Með nýjum lausnum sem byggja á sýndarvélatækni má afhenda slíkar þjónustur hraðar og ódýrar en áður. 

Viltu leigja gagnaver?

Til dæmis má setja upp og afhenda viðskiptavini sýndargagnaver (Virtual Datacenter) á skömmum tíma. Þá fær viðskiptavinur fullan aðgang að umsýslu sýndarvéla og netþjónustum. Notkun er mæld og reikningur sendur mánaðarlega eftir því sem umfang umhverfisins stækkar eða minnkar. Ávinningurinn af öllu þessu er að fyrirtæki geta auðveldlega breytt umfangi á tölvuumhverfi sínu eftir þörfum með úthýsingu. Þannig má spara vélbúnaðarkaup og kostnað við viðhald og rekstur á búnaði. 

Tvær áhugaverðar nýjungar á sviði sýndarvéla

Ég vil vekja athygli á tveimur nýjungum frá fyrirtækinu VMware sem hvor um sig er áhugavert dæmi um þróun sýndarvélatækni. 

Gagnageymslur keyrðar á sýndarvélum

VSAN stendur fyrir Virtual-SAN sem kannski mætti kalla sýndargagnageymslu. Gagnageymsla er þá færð frá miðlægri gagnageymslu (SAN) og færð yfir í sýndarþjón sem keyrir gagnadiska. Þetta viðheldur aðgengi notenda að gögnum þrátt fyrir einstakar bilanir í vélbúnaði. Hraði eykst þar sem aðgengi örgjörva að gagnageymslu er einfaldað. Hefðbundnir harðir diskar fyrir netþjóna eru notaðir í stað dýrari og sérhæfðra diska fyrir gagnageymslur og eru nýttir fyrir gögn sem er sjaldan breytt eða lesin. SSD diskar eða Flash minniskort  eru notuð fyrir gögn sem eru hýst í flýtiminni (Cache) og er oft notuð. Þannig nýtist hraði SSD diska best. 

Netkerfi keyrð á sýndarvélum

NSX er hugbúnaður og aðferðarfræði fyrir netkerfi. Í stað þess að keyra netkerfi á sérhæfðum vélbúnaði eru netkerfi keyrð á sýndarvélum. Helstu fjórar þjónusturnar sem eru veittar með NSX eru eftirfarandi: 

  • Beinir (Router)
  • Eldveggur (Firewall)
  • Álagsdreifir (Load balancer)
  • VPN tengingar (Tunneling)

Öllu er þessu stýrt með með NSX hugbúnaðinum af kerfisstjóra. Regluverki hugbúnaðar er framfylgt í Data Plane, (hypervisor). NSX má einnig nýta til að stýra vélbúnaði og keppast  vélbúnaðarframleiðendur við að gera sinn búnað NSX samhæfðan. Kerfisstjórar stýra virkni NSX úr sama viðmóti og sýndarvélaumhverfi sem einfaldar kerfisumsjón og veitir góða yfirsýn.

Viltu vita meira?

Marteinn er nýbakaður vExpert en það er viðurkenning sem VMware tölvufyrirtækið veitir þeim sem skara framúr í að miðla þekkingu til VMware samfélagsins. Af því tilefni tókum við stutt viðtal við hann.